Umferðarvefurinn

Hjóladagar

Hjóladagar

Hjólað skólann

Grundaskóli hefur valið að vinna þetta verkefni í samvinnu við íþróttakennara ásamt nemendum 8. – 10. bekkjar. Hjólaþema er í eina viku á vori þar sem reynir á samvinnu starfsmanna og eldri nemenda.

Hér má sjá myndband frá hjóladögum 2017.

Flökkuhjól: Vikuna fyrir hjóladagana „flakkar“ reiðhjól um skólann með ýmsum verkefnum tengdum hjóli og hjólreiðum. Á reiðhjólið er hengdur kennslupakki fyrir ca. eina kennslustund. Umsjónakennarar panta „flökkuhjólið“ þann tíma sem það hentar þeim að vera með fræðslu og verkefnavinnu tengda reiðhjólinu. Í kennslustundinni er farið yfir allt það helsta sem þarf að vera á hverju hjóli og einnig er farið yfir helstu reglur sem skipta máli þegar hjólað er á reiðhjóli. Það er m.a. farið í það að hjóla alltaf hægra megin á gangstétt og ef gangandi vegfarandi er framundan og ætlunin er að taka fram úr, þarf að hægja á sér og hringja bjöllunni kurteisilega í hæfilegri fjarlægð.

Hjólafærni: Nemendum 8. – 10. bekkjar er boðið að fara á hjólafærninámskeið hjá http://www.hjolfaerni.is/. Þar læra nemendur allt það helsta sem þarf að hafa í huga við almennt viðhald á reiðhjóli. Einnig læra þeir að yfirfara hjólin og skoða þau eftir gátlista. Nemendur læra margt í tengslum við reiðhjólið, m.a. hvernig best sé að stilla hjálminn og hnakkinn. Þeir læra einnig ýmislegt í tengslum við bremsurnar, gírana og keðjuna svo eitthvað sé nefnt.

Þetta stuðlar að bættu ástandi hjólanna og um leið að meira umferðaröryggi. Að auki eru eldri nemendur þjálfaðir í að aðstoða við hjólatíma sem boðnir eru fyrir nemendur 1. – 7. bekkjar. 

Hjólatímarnir: Nemendur 1. – 7. bekkjar mæta á hjólum, með reiðhjólahjálm og endurskinsvesti í tvo íþróttatíma í sömu vikunni.

  • Fyrri hjólatíminn: Farið yfir ástand hjólsins. Pumpað, smurt, þrifið og svo er hjólið skoðað með gátlista sem nemendur fara með heim. Einnig eru hjálmar, stýri og hnakkur stillt rétt.

  • Seinni hjólatíminn: Hjólaleikir og þrautabraut undir stjórn íþróttakennara. Nemendur 8. – 10. bekkjar sem fóru á hjólafærninámskeiðið aðstoða einnig nemendur í þrautabrautinni. Íþróttakennarar stjórna ýmsum æfingum og leikjum á hjóli.

Nemendur þjálfa hjólafærni bæði í þrautabraut sem og í leikjum og æfingum hjá íþróttakennara. Einnig ýtir þessi vinna undir það að nemendur haldi hjólinu sínu betur við þannig að ending þess verður betri og öryggi eykst, t.d. með rétt stilltum hjálmi og því að bremsur séu í lagi. 

Á vefsíðunni www.mms má finna góðar lýsingar á hjólatímum og ýmsum hjólaleikjum. Námsefnið heitir „Hjólum og njótum“ og „Hjólum meira og njótum“.  Um er að ræða myndbönd og kennsluefni sem gott er að nota í undirbúningsferlinu og með nemendum.

Hér að neðan má sjá gátlistann fyrir skoðun á hjólum, gerið listann endilega að ykkar.
kennarar Created with Sketch.