Umferðarvefurinn

Gögn fyrir Hjóladaga

Gögn fyrir Hjóladaga

Umræðuefni sem gott er að fara yfir með nemendum.

 • Hjóla skal á gangstétt, en þar eru hjólareiðamenn gestir.

 • Hjóla alltaf hægra megin á gangstéttinni. Þegar við tökum fram úr þá gerum við það vinstra megin.

 • Ef gangandi vegfarandi er framundan og þið ætlið fram úr, þarf að   hægja á sér og hringja bjöllunni kurteisislega í hæfilegri fjarlægð.

 • Gæta sín á hundum í bandi.

 • Passa sig vel á öllum blindhornum og blindbeygjum, hægja á sér.

 • Ganga vel frá hjólum við skólann þannig að þau loki ekki fyrir inngang.

 • Muna að læsa hjólunum.

 • Láta önnur hjól vera í frímínútum og alls ekki setjast á hjól sem er í   hjólagrind. Það getur skemmt gjörðina.

Að stilla hjálminn rétt

Þegar hjálmurinn er stilltur þarf að setja hann beint niður á höfuðið eins og myndin sýnir. Hjálmurinn má ekki halla aftur á höfðinu því þá er ekki hægt að stilla hann rétt.

Byrjað er á því að stilla aftara bandið en það á að vera slétt. Aftara bandið tengist fremra bandinu með spennu en spennan á að sitja beint fyrir neðan kjálkaliðinn. Ef þetta er ekki stillt rétt er ómögulegt að stilla bandið undir hökunni.

Bandið undir hökunni á að falla það þétt að einungis sé hægt að koma einum fingri á milli. Það á ekki að herðast að. Betra er að hafa spennuna aðeins til hliðar til að koma í veg fyrir að hún klemmist í barnið þegar henni er lokað.

 Að lokum þarf að kanna hvort hjálmurinn sitji ekki örugglega þétt að höfðinu. Það er prófað með því að taka utan um hjálminn eins og myndin sýnir og hreyfa höfuð barnsins fram og aftur og til hliðar. Hjálmurinn má ekki færast til nema um nokkra millimetra. Ef hann er lausari en það, þarf að fara yfir allar stillingar að nýju.

 Hjálmurinn skal sitja rétt - ekki of aftarlega.

 • Hjálmurinn skal sitja þétt svo hann hvorki detti af né skekkist þegar á reynir.

 • Böndin eiga að vera rétt stillt. Aftara bandið skal stillt á móti fremra bandi, þannig að eyrað lendi í miðju V-forminu sem böndin mynda.

 • Hvorki má líma merki á hjálminn né mála hann því þá getur höggþolið minnkað.

 • Hjálminn má aðeins hreinsa með vatni og sápu - ekki með uppleysandi efnum, s.s. þynni, bensíni o.s.frv.

 • Hjálminn á ekki að nota í leiktækjum.


kennarar Created with Sketch.