Á leið í skólann

Það er spennandi að byrja í skóla. Nýr og framandi heimur opnast. Um leið verður barnið þátttakandi í umferðinni.

Börn fara með ýmsum hætti í skólann, þau ganga, hjóla, eru keyrð í einkabíl eða jafnvel með skólabíl. Barn sem er að byrja í skóla hefur ekki þroska eða reynslu til að átta sig á því sem skiptir máli að gefa gaum í umferðinni.

10 örugg ráð: 

1.        Æfum leiðina í og úr skóla með barninu 
2.       Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu 
3.       Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér 
4.       Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir 
5.       Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar 
6.       Verum sýnileg, notum endurskinsmerki 
7.        Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir 
8.       Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir 
9.       Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla 
10.      Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu.


Gangandi í skóla

- Æfum leiðina í og úr skóla
- Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
- Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér
- Þar sem þarf að fara yfir götu á að stoppa, líta vel til beggja hliða og hlusta, ganga síðan yfir ef það er óhætt
- Alltaf skal nota gangbrautir þar sem þær eru
- Kenna skal barninu að nota handstýrð umferðarljós rétt. Hvað rauði og græni liturinn táknar. Ef barnið eru komið út á gangbrautina þegar græna ljósið fer að blikka og það rauða birtist þá á það að halda áfram yfir götuna. Ekki fara til baka
- Aldrei má ganga út á götu á milli kyrrstæðra bíla
- Ef enginn gangstétt er, á að ganga á móti umferðinni, eins fjarri henni og unnt er
- Ef fleiri eru saman á að ganga í einfaldri röð.
- Allir eiga að nota endurskinsmerki eða vera í yfirhöfnum með endurskini.


Hjólandi í skóla
- Börn sem eru að hefja skólagöngu eiga ekki að ferðast ein á reiðhjóli
- Samkvæmt lögum mega börn yngri en 7 ára ekki hjóla ein á akbraut
- Börnum sem eru yngri en 15 ára ber skylda að nota hjálm þegar þau hjóla.

Fræðslumyndband - á leið í skólann

 
Keyrð í skóla

Það borgar sig að láta barnið ganga til skóla nema aðstæður séu hættulegar. Öll umferð ökutækja við skóla skapar hættu. Ef nauðsynlegt er að aka barninu til skóla skal gæta vel að því hvar barnið fer út bílnum við skólann.
- Því skal alltaf hleypt út við gangstéttina, aldrei út á akbraut
- Við marga skóla eru sérútbúin útskot þar sem hægt er að stoppa í stutta stund og hleypa barninu út úr bílnum – notum þau
- Barn sem er að hefja skólagöngu er yfirleitt ekki orðið nógu stórt til að nota eingöngu bílbelti. Nauðsynlegt er að nota viðeigandi öryggisbúnað þar til barnið hefur náð 135 cm á hæð. Bæklingar á s ex tungumálum má finna hér.

Með skólabíl

Ef barnið ferðast með skólabíl þarf að brýna eftirfarandi fyrir því.

- Að ganga inn og út úr bílnum í einfaldri röð
- Að bíða þar til bíllinn er farinn áður en gengið er yfir götuna
- Að nota alltaf bílbelti og viðeigandi öryggisbúnað.

Fræðslumyndband - skólaakstur 

 
 
Fræðsla frá fyrstu tíð
Það er mjög mikilvægt að barnið sé á fyrstu árum ævinnar frætt um rétta hegðun í umferðinni. Með því aukast líkur á að því farnist vel.

Áður en skólaganga hefst er tilvalið að finna út öruggustu leiðina í skólann og ganga hana með barninu nokkrum sinnum. Stysta leiðin í skólann er ekki alltaf sú öruggasta, miklu frekar leiðin þar sem sjaldnast þarf að fara yfir götu. Þó aðstæður séu þannig að barnið geti gengið eitt í skólann er samt nauðsynlegt að fylgja því fyrstu dagana og fara vel yfir allar umferðarreglur.