Umferðaröryggi skólabarna

Fyrir tæpum áratug hófu nokkrir grunnskólar markvissa kennslu í umferðarfræðslu. Grundaskóli á Akranesi er móðurskóli í umferðarfræðslu og hefur skólinn m.a. það hlutverk að vera frumkvöðull á sínu sviði í uppbyggingu umferðarfræðslu og að gegna ráðgjafarhlutverki með fræðslu til allra grunnskóla.

Umferðaröryggisáætlun leik- og grunnskóla

 

Vægi umferðarfræðslu í grunnskólum landsins hefur aukist mikið á  undanförnum árum enda hefur reynslan sýnt að bætt fræðsla og virkari upplýsingagjöf skila góðum árangri í bættu umferðaröryggi. Margir skólar hafa ráðist í stór þemaverkefni tengd umferðarfræðslu og eru þau oft samþætt öðru skólastarfi. Nemendur vinna verkefnin í samvinnu við nærsamfélagið og foreldra enda vert að hafa í huga að örugg umferð er ekki eingöngu verkefni skólanna heldur samfélagsins alls.

 

Gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir leik – og grunnskóla er mikilvægur liður í því að skipuleggja umferðarfræðslu og aðgerðir með það að meginmarkmiði að umhverfi skólans sé sem öruggast. Áætlunin stuðlar einnig að því að fyllsta öryggis sé gætt í ferðum á vegum skólans. Hver áætlun mótast ætíð af þörfum og aðstæðum í hverjum skóla en byggist þó mikið á eftirfarandi  þáttum:

I. Umferðarfræðslu .

II. Fyrirmyndum

III. Samvinnu


 I.  Umferðarfræðsla

Leik – og grunnskólar ættu að setja námsáætlun um umferðaröryggi fyrir alla árganga á dagskrá. Inn á vefjunum www.nams.is og www.umferd.is  er að finna námsefni í umferðarfræðslu fyrir skóla og hvert aldursstig. Kennsluáætlun í umferðarfræðslu fyrir yngsta,- mið - , og unglingastig grunnskóla má einnig finna á vefnum www.umferd.is.  Þá kennsluáætlun geta skólar svo aðlagað að sínum þörfum og aðstæðum.

Í upphafi verkefnis væri t.d. hægt að efna til umferðaröryggisdaga og fá fyrirlesara í skólann til að fræða nemendur og starfsfólk.

Hugmyndir:

· útbúa kennsluáætlun í umferðarfræðslu á öllum stigum og hafa til reiðu námsgögn sem til þarf.

· hafa umferðarþemadaga og hjóladaga í skólanum.

 

 II. Fyrirmyndir

Börn og unglingar þurfa góðar fyrirmyndir í umferðinni.  Þar hefur atferli eldri nemenda og fullorðinna mikið að segja. Mikilvægt er að virkja eldri nemendur til að fræða þá yngri en með því fæst tvöfaldur ávinningur því um leið og þeir fræða þá yngri þá læra þeir sjálfir. Hlutverk heimilisins er mjög stórt í þessu efni því ef við ætlumst til tiltekinnar hegðunar af börnunum verðum við sjálf að sýna gott fordæmi. 

Hugmyndir:

·  Hvetja foreldra og nærsamfélagið til að vera til fyrirmyndar í umferðinni.

·  Skólinn sendi reglulega upplýsingar um umferðaröryggismál á starfsmenn  og foreldra. 

· Foreldrar og starfsfólk eru mikilvægar fyrirmyndir hvað varðar hjálma-  og endurskinsmerkjanotkun.

·  Ræða viðhorf til öryggisbúnaðar eins og t.d. bílbelta og reiðhjólahjálma.

·  Ræða viðhorf og tillitsemi í umferðinni.


 III.  Samvinna

Mikilvægt er að allir aðilar sem koma að umferðarfræðslu vinni saman og skiptist á fræðsluefni og ábendingum um það sem betur má gera. Þannig verða boðleiðir styttri og ákvarðanir um úrbætur ganga betur fyrir sig. Huga þarf að þeim kröfum sem gerðar eru til aðila sem annast þjónustu og stuðning varðandi umferð og öryggi barna. Mikilvægt er að sveitafélög og skólar vinni saman að þeim úrbótum sem þarf að gera.

Hugmyndir:

·  Hvetja foreldrafélagið til að vera virkt í umferðaröryggismálum.

·  Hafa góða samvinnu og samræður um umferðarfræðslu á milli allra starfsmanna, nemendafélags og skólastjórnenda.

 

Gerð umferðaröryggisáætlunar

Mikilvægasti þátturinn í gerð umferðaröryggisáætlunar er að skólastjórnendur setji málið á dagskrá og hefji vinnuna, t.d. með því að skipa starfshóp foreldra,  kennara, skólastjórnenda og nemenda. Gott er að skoða það sem gert hefur verið í umferðarfræðslu í skólanum og skilgreina aðgerðarlista með forgangsröðun verkefna og sem þarf að vinna og úrbóta sem þarf að gera.

Á fyrstu stigum verkefnisins er gott að sækja sér ráðgjöf frá sérfræðingum s.s. frá lögreglu eða sveitarfélagi en einnig er hægt að fá verkefnastjóra í umferðarfræðslu í Grundaskóla á Akranesi í heimsókn til að vera með fræðslu fyrir starfsmenn. Hann getur einnig bent á gott kennsluefni og annað hagnýtt er tengist umferðarfræðslu.

 

Gátlisti

Í dag fer nám ekki eingöngu fram innan veggja skólans. Nemendur eru oft á faraldsfæti með starfsmönnum skóla, ýmist gangandi, hjólandi eða í hópbifreiðum. Þá er gott að hafa gátlista til að fara eftir svo öll öryggisatriði séu í lagi og starfsmenn viti nákvæmlega hvernig öryggismálum er háttað fyrir ferðir á vegum skólans. Það veitir kennurum og foreldrum mikið öryggi. Gátlistann má sjá á http://www.umferd.is/oryggi/umferdaroryggisaaetlun-skola/gatlisti-fyrir-umferdaroryggisaaetlun/  .

Leiðin í og úr skóla

Mikilvægt er að nemendur komist leiðar sinnar til og frá skóla á sem öruggastan hátt. Hægt er að draga úr bílaumferð með því að hvetja til notkunar á virkum ferðamátum og er afar mikilvægt að tryggja að göngu- og hjólaleiðir séu öruggar. Hvetja þarf foreldra til að fræða börn sín um öruggustu leiðina í skólann.

 Skólaakstur og akstur ferðaþjónustu fatlaðra barna er mikilvæg þjónusta og því þarf leiðin að skólanum að vera aðgengileg og örugg.

Þegar verið er að keyra og sækja börn í skólann er mikilvægt að gæta þess að bílaumferðin gangi vel fyrir sig og sé skipulögð þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Einnig er vert að minna foreldra á að spenna bílbeltin á sig og börnin jafnvel þótt leiðin í skólann sé stutt. Aðstæður við skólana eru misgóðar til að hleypa börnunum í eða úr bílum og því er mikilvægt að gera allt skólasamfélagið meðvitað um góða umferðarmenningu í nágrenni skólanna. Sem dæmi um það er skilti sem sett var upp fyrir utan skóla í Reykjavík en þar eru mikilvæg skilaboð sett fram á skemmtilegan hátt „stoppa, kyssa, fara“.

Mikilvægt er að:

·  hafa góða og örugga aðkomuleið að skólanum fyrir gangandi og  hjólandi vegfarendur. 

·  hafa góða og greiða aðkomuleið að skólanum fyrir akandi vegfarendur þar sem unnt er að hleypa börnum í og úr bíl með öruggum hætti. 

· útbúa öryggisreglur um göngu-, hjóla-, strætó- og bílferðir sem farnar eru á vegum skólans.  

· benda á kosti þess að ganga í skólann.

· greina hvort þörf sé á gangbrautarvörslu við skólann og ef svo er, fá starfsmann eða elstu bekkinga til verksins.

· hafa samstarf við bæjaryfirvöld um það sem betur má fara í umferðaröryggismálum í nánasta umhverfi skólans.

Góður árangur hefur náðst í umferðaröryggismálum en þrátt fyrir það er mikilvægt að huga stöðugt að góðri umferðarfræðslu.

Umferðarfræðsla í grunnskólum leggur grundvöllinn að bættri hegðun komandi kynslóða í umferðinni og hefur því alla burði til þess að vera stór þáttur í bættri umferðarmenningu og umferðaröryggi á næstu árum og áratugum.

Samgöngustofa

Grundaskóli