Umferðarvefurinn

Leikskólar geri umferðarskólann að sínum

Vegna aðstæðna í samfélaginu sér Samgöngustofa sér ekki fært að heimsækja leikskólana þetta vorið

Á hverju vori starfrækir Samgöngustofa umferðarskóla fyrir elsta hóp leikskólabarna og heimsækir leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess hafa margir leikskólar á landsbyggðinni gert umferðarskólann að sínum og jafnvel boðið lögreglunni á staðnum í heimsókn og unnið þetta með henni. 

Vegna aðstæðna í samfélaginu sér Samgöngustofa sér ekki fært að heimsækja leikskólana þetta vorið. Það breytir þó ekki mikilvægi þess að börnin fái fræðslu um umferðina því þannig komum við í veg fyrir slys og gerum börnin að góðum vegfarendum. Eins er nauðsynlegt að aðstoða foreldra við að kenna börnum umferðarreglurnar og veita þeim fræðslu um sérstöðu barna í umferðinni. 

Á vefnum Umferd.is hefur verið sett upp upplýsingasíða en þar er farið yfir það skref fyrir skref hvernig leikskólar og kennarar geta skipulagt fræðslustund með nemendum sínum (árgangi 2014) sem hefja grunnskólagöngu í haust. Umferðarskólinn er þannig uppbyggður að kennari sýnir nemendum 10 glærur og fer eftir handritinu sem fylgir með þeim. Í lok heimsóknarinnar fá nemendur litabók með sér heim sem þau sýna foreldrum, forráðamönnum, systkinum eða ömmu og afa sem geta þá fylgt fræðslunni eftir og farið með börnin í göngu- og hjólaferðir.

Vonandi verður settur upp umferðarskóli í öllum leikskólum landsins þannig að öll börn læri sem best að fara eftir umferðarreglunum og að velja sér t.d. öruggustu leiðina í skólann í haust. Nánari upplýsingar veitir öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu í gegnum netfangið fraedsla@samgongustofa.is

MyndirD

MyndB MyndirC MyndA