Umferðarvefurinn

Um vefinn
  • Taska

Um vefinn

Umferðarvefurinn er fræðsluvefur um umferðarmál fyrir nemendur í grunnskólum, kennara og foreldra. Vefurinn er í sífelldri þróun og nýtt efni bætist við. 

Vefnum er skipt í þrjá hluta. Sá fyrsti er ætlaður fyrir nemendur, annar er fyrir kennara og sá þriðji fjallar um öryggi og umferðaröryggisáætlun skóla.

Öll börn á Íslandi frá þriggja til átta ára eru nemendur í umferðarskólanum Ungir vegfarendur. Eftir átta ára aldur er umferðarfræðsla  alfarið á ábyrgð grunnskólans.

Umferðin er daglegt verkefni fólks á öllum aldri. Skynjun okkar á þessum raunveruleika er hins vegar mismunandi og það er þekkt að börn skynja aðstæður á annan hátt en hinir fullorðnu. Þá eru samskipti vegfarenda einnig lærð hegðun sem byggir á ákveðnum sáttmála sem byggist á  lögum og reglum. 

Reynslan hefur kennt okkur að bestur árangur næst í umferðarfræðslu með því að tengja námsefnið við aðrar námsgreinar. Tengifletir eru við allar námsgreinar grunnskólans og nálgunin er meira bundin við hugmyndaflug þátttakenda en eitthvað annað. Umferðarfræðslan á ekki að fjalla bara um boð og bönn heldur á að leitast við að hafa kennsluaðferðir fjölbreyttar. Gefum nemendum tækifæri til þess að leita sér upplýsinga og fylgjast með í umhverfi sínu. 

Umferðarvefnum er ætlað að safna saman tiltækum kennslugögnum og gefa þeim sem áhuga hafa hugmyndir um hvernig hægt sé að vinna með umferðina. Við viljum reyna að stilla saman strengi skólafólks og hvetja til aukinnar umferðarfræðslu og forvarnarstarfs í íslenskum grunnskólum. Umferðarfræðsla á erindi til allra.