Umferðarvefurinn

Um vefinn
  • Taska

Um vefinn

Samvinnuverkefni Námsgagnastofnunar, Samgöngustofu og Grundaskóla

Umferðarvefurinn er fræðsluvefur um umferðarmál fyrir nemendur í grunnskólum, kennara og foreldra. Gert er ráð fyrir að vefurinn verði í sífelldri þróun og að nýtt efni bætist markvisst við. Leitast er við að hafa eins fjölbreytt efni og kostur er á vefnum en honum er skipt í þrjá hluta. Sá fyrsti er ætlaður fyrir nemendur, annar er ætlaður fyrir kennara og sá þriðji fjallar um öryggi og umferðaröryggisáætlun skóla.

Vefurinn er orðinn að veruleika meðal annars fyrir tilstilli Rannsóknarráðs umferðaröryggismála sem veitti styrki við þróun verkefnisins. Það er trú okkar að vefurinn sé gagnlegur og auki áhuga á umferðaröryggi í skólastarfinu.

Allt frá þriggja ára aldri hafa nemendur fengið formlega fræðslu um umferðarmál í umferðarskólanum Ungir vegfarendur. Þeirri fræðslu lýkur þegar nemendur hafa náð sjö ára aldri og er hin formlega fræðsla þá alfarið á ábyrgð grunnskólans.

Sú fræðsla sem opinberar stofnanir inna af hendi verður aldrei nema hluti af því umferðaruppeldi sem þarf að fara fram til að nemendur læri að verða ábyrgir vegfarendur. Þar er hlutverk heimilanna í fyrirrúmi því þar er mótunin sterkust. Það skiptir hins vegar miklu máli að heimili og skóli nái öflugu samstarfi á þessu sviði.

Til að umferðarfræðsla beri árangur verður að byggja á virkni nemenda og taka mið af þekkingu þeirra og reynslu en þeir hafa jafnan frá mörgu að segja í þessum efnum. Umferðin er hluti af daglegu lífi nemenda og oft skapast því tækifæri til að fjalla um umferðarmál. Þá er mikilvægt að benda á ábyrga hegðun nemenda þegar hún sýnir sig og ræða hana til að styrkja slíka hegðun og útskýra um leið hvers vegna hún er rétt.

Verkefnin verða að taka mið af þeim raunveruleika sem nemendur búa við. Umferðin er daglegt verkefni fólks á öllum aldri. Skynjun okkar á þessum raunveruleika er hins vegar mismunandi og það er þekkt að börn skynja aðstæður á annan hátt en hinir fullorðnu. Þá eru samskipti vegfarenda einnig lærð hegðun sem byggir á ákveðnum sáttmála sem er greiptur niður í lög og reglur. Virðing fyrir þessum sáttmála er ómetanleg því án hennar getum við aldrei þroskað rétta umferðarhegðun. Höfum það hugfast að viðhorf þeirra sem eldri eru móta þá yngri sem á eftir koma.

Reynslan hefur kennt okkur að bestur árangur næst í umferðarfræðslu með því að tengja námsefnið við aðrar námsgreinar. Tengifletir eru við allar námsgreinar grunnskólans og nálgunin er meira bundin við hugmyndaflug þátttakenda en eitthvað annað. Umferðarfræðslan á ekki að fjalla bara um boð og bönn heldur á að leitast við að hafa kennsluaðferðir fjölbreyttar. Gefum nemendum tækifæri til þess að leita sér upplýsinga og fylgjast með í umhverfi sínu. Það að skoða málin út frá mörgum sjónarhornum er gagnlegt því allir hlutir hafa kosti og galla. Í umferðarmálum er ekki einn sannleikur frekar en í öðrum málum. Á hverjum degi blasa við okkur ýmis umferðartengd vandamál enda eru umferðarslys að verða eitt af helstu heilbrigðisvandamálum mannkyns. Það er verkefni komandi kynslóða að finna lausnir á þeim málum þar sem hinir eldri sigldu í strand. Umferðarslys eru ekkert náttúrulögmál heldur verkefni sem krefst lausnar.

Það að breyta um umhverfi, fara í vettvangsferðir og eiga samstarf við utanaðkomandi fagaðila er ómetanlegt í umferðarfræðslunni. Með tilkomu tölvutækninnar hafa opnast nýjar víddir í kennslu. Staðsetning okkar skiptir nú minna máli en áður því við getum sótt upplýsingar og þekkingu út um allan heim. Samstarfsaðilar geta verið á sitthvoru landshorninu eða í sitthvorum heimshlutanum. Í þessum aðstæðum eru fólgnir óendanlegir möguleikar fyrir nemendur, foreldra og kennara.

Umferðarvefnum er ætlað að safna saman tiltækum kennslugögnum og gefa þeim sem áhuga hafa hugmyndir um hvernig hægt sé að vinna með umferðina. Við viljum reyna að stilla saman strengi skólafólks og hvetja til aukinnar umferðarfræðslu og forvarnarstarfs í íslenskum grunnskólum. Umferðarfræðsla á erindi til allra. Verkefnið er ógnarstórt en spennandi viðfangsefni. Allir foreldrar vilja börnum sínum það besta. Við vitum að í umhverfinu leynast margar hættur. Hættur sem við viljum að börnin forðist. En hvernig getum við náð til barnanna þannig að þau breyti rétt og taki rökrétta afstöðu þegar á reynir?

Með frumkvæði, áræðni og samvinnu næst árangur. Við skulum leggjast á eitt og taka umferðarslysin úr umferð.