Umferðarvefurinn

Umferðarskólinn

- fyrir börn sem eru að hefja grunnskólagöngu

Í umferðarskólanum er m.a. fjallað um öryggi barna í bílum, hvernig fara eigi yfir götu og hvar öruggast sé að hjóla og leika sér úti. Þá er reiðhjólahjálmur skoðaður og börnunum kennt að stilla hann rétt á höfði. 

Elsti hópur leikskólans eða nemendur í 1. bekk grunnskóla
Samgöngustofa hefur haldið úti umferðarskóla fyrir elsta hóp leikskólabarna og heimsótt leikskóla á höfuðborgarsvæðinu að vori. Í Kópavogi fer umferðarskólinn fram í frístund í ágúst með nemendum sem eru að byrja í 1. bekk. Margir leikskólar á landsbyggðinni hafa gert umferðarskólann að sínum og jafnvel boðið lögreglunni á staðnum í heimsókn og unnið þetta með henni.

Framkvæmd og námsefni
Umferðarskólinn er þannig uppbyggður að kennari sýnir nemendum 10 glærur og fer eftir handritinu sem fylgir með þeim. Algengast er að nota tölvu sem tengd er við skjávarpa og varpa myndunum og myndböndum upp á tjald eða vegg. Þar hitta þau fyrir Matthildi, Dodda og innipúkann sem þau þekkja úr bókunum Krakkarnir í Kátugötu sem eru sendar heim til allra barna í landinu á aldrinum 3-7 ára. Gott er að hafa reiðhjólahjálm við höndina en í handritinu kemur fram hvernig fjallað skal um notkun hans og hvernig best er að stilla hann rétt á höfði.

Myndbönd - Úti í umferðinni
Þá horfa nemendur á valin myndbönd en í samstarfi við KrakkaRÚV hafa verið unnin átta stutt myndbönd þar sem Erlen, umferðarsnillingur, er úti í umferðinni og kannar hvaða reglur krakkar, og reyndar fullorðnir líka, þurfa að kunna til að vera örugg í umferðinni. 

Þættirnir eru allir aðgengilegir hér. Þættir 1, 3, 4, 7 og 8 eiga mikið erindi við þennan hóp og þennan árstíma. Tilvalið er svo að horfa á fleiri þætti í vetur eða við önnur tækifæri og rifja þá upp um leið það sem við kunnum og höfum lært.

Þáttur 1 Við götuna
Þáttur 2 Sjáumst í myrkrinu
Þáttur 3 Örugg á hjólinu
Þáttur 4 Í bílnum
Þáttur 5 Úti að leika
Þáttur 6 Ferðast með strætó
Þáttur 7 Öruggasta leiðin í skólann
Þáttur 8 Merkin í umferðinni

Litabók og fræðsluefni heim
Í lok heimsóknarinnar fá nemendur litabók með sér heim sem þau sýna foreldrum, forráðamönnum, systkinum eða ömmu og afa sem geta þá fylgt fræðslunni eftir og farið með börnin í göngu- og hjólaferðir. Þannig læra börnin best að fara eftir umferðarreglunum og að velja sér t.d. öruggustu leiðina í skólann. 

Hægt er að panta litabókina í gegnum netfangið fraedsla@samgongustofa.is þar sem hver litabók kostar 50 kr. stk. Einnig er litabókin aðgengileg til útprentunar hér.

Börnin læri umferðarreglurnar með aðstoð fullorðinna
Barnið þarf að læra á umhverfi sitt og fá tíma til að velta viðfangsefninu fyrir sér. Barnið fær að prófa það sem það hefur lært, t.d. að taka ákvörðun um hvar öruggast er að fara yfir götu og hvernig á að haga sér í umferðinni. Markmiðið er að barnið skynji það sem er að gerast í nánasta umhverfi sínu og fái tækifæri til að læra umferðarreglurnar með aðstoð fullorðinna. Þannig lærir barnið smátt og smátt hvernig fara á að í umferðinni og skilur mikilvægi þess að fara eftir umferðarreglunum.

Litabok

MyndirC

MyndirD

MyndA

MyndB

MyndE


logga Created with Sketch.