Umferðarvefurinn

Dómar úr Hæstarétti Íslands

Dómar úr Hæstarétti Íslands

Dómar þessir eru fengnir úr Hæstarétti. Þetta eru raunveruleg sakamál en nöfnum fólks og staðsetningu hefur verið breytt

Dómur 1

Málsatvik:

Þorsteinn slasaðist er bifreið, sem hann var farþegi í, fór út af vegi og valt. Ökumaður bifreiðarinnar var ölvaður. Þorsteinn stefndi eiganda bifreiðarinnar og tryggingafélagi hans til greiðslu skaðabóta vegna slyssins. Grandsemi Þorsteins um ölvunarástand ökumannsins var talin sönnuð og því fallist á að Þorsteinn hefði tekið á sig áhættu með því að fara upp í bifreiðina. Deilt var um hvernig skýra bæri breytingar, sem gerðar voru með XIII. kafla laga nr. 50/1987 að því er varðar fébætur og vátryggingu. Talið að með fyrri dómi Hæstaréttar, hafi verið leyst úr því, að ekki hafi átt að breyta með lögunum eldri dómvenju varðandi áhættutöku við þær aðstæður að farþegi slasast í bifreið, sem stjórnað er af ölvuðum ökumanni. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu var því staðfest.

Atvik máls og ágreiningsefni:

Málsatvik eru þau að um hádegisbilið dag einn fór Þorsteinn ásamt skipsfélögum sínum þeim Boga og Örvari frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur í þeim tilgangi að skemmta sér. Þeir hófu áfengsdrykkju síðdegis og voru síðan við drykkju á veitingastöðum í Reykjavík um kvöldið. Um kvöldið hittu þeir félaga sína og voru þeir saman við drykkju. Varð Þorsteinn mjög ölvaður. Hann kveðst ekkert muna eftir slysinu eða aðdraganda þess. Það síðasta sem hann kveðst muna frá umræddu kvöldi er að hafa verið staddur á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur um klukkan 00:30 um nóttina. Samkvæmt gögnum máls fór stefnandi ásamt þeim Boga og Örvari í leigubifreið til Þorlákshafnar síðar um nóttina. Bogi fór heim til sín, en Þorsteinn og Örvar gengu áleiðis að heimili Þorsteins. Skömmu síðar kom Bogi akandi á bifreið vinkonu þeirra, hennar Kristrúnar, og tók hann Þorstein og Örvar upp í bifreiðina og óku þeir félagar saman af stað. Á vegi við Þorlákshöfn skammt norðan við sveitabæ valt bifreiðin. Við það hentist Þorsteinn út úr henni og slasaðist mikið. Var Þorsteinn mjög ölvaður er komið var að honum á slysstað. Samkvæmt lögregluskýrslu var tilkynnt um slysið kl. 04:35. Samkvæmt framlögðum læknisvottorðum hlaut Þorsteinn mikla áverka við slysið. Hann hlaut slæm kjálkabrot beggja vegna, missti tvær framtennur, hlaut brot á vinstri upphandlegg og sprungu á hnéskel. Eftir slysið þjáðist hann af mikilli þreytu, höfuðverkjum og einbeitingarleysi. Samkvæmt taugasálfræðilegu mati bar hann öll merki þess að hafa orðið fyrir truflunum á heilastarfsemi vegna höfuðmeiðsla við óhappið. Samkvæmt örorkumati læknis var varanleg örorka stefnanda vegna slyssins metin 30%.

Bifreiðin var tryggð hjá Sjóvá-Almennum Tryggingum HF og krafði Þorsteinn því Sjóvá-Almennar Tryggingar HF um greiðslu bóta. Tryggingafélagið hafnaði bótagreiðslu og hefur Þorsteinn því höfðað mál þetta. Í málinu er deilt um bótaskyldu og fjárhæð bóta.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Þorsteinn byggir bótarétt á hendur Kristrúnar, eiganda bifreiðarinnar, á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem hún var eigandi bifreiðarinnar er slysið átti sér stað og sé fébótaskyld vegna þess tjóns er af notkun bifreiðarinnar hlaust samkvæmt nefndum ákvæðum. Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda Sjóvá-Almennum Tryggingum HF er vísað til 1. mgr. 95. gr. sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga þar sem félagið er ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar.

Stefndi Sjóvá-Almennar Tryggingar HF höfnuðu greiðslu bóta með vísan til þess að stefnandi hafi tekið á sig áhættu í skilningi skaðabótaréttar með því að vera farþegi í bifreiðinni, þar sem ökumaður hennar var ölvaður. Ekki verður fallist á það sjónarmið. Þorsteinn var mjög ölvaður er hann tók sér far með Boga. Hafi hann ekki verið í nokkru ástandi til þess að leggja mat á hugsanlega ölvun ökumannsins enda var ölvun Þorsteins slík að hann man síðast eftir sér í miðbæ Reykjavíkur laust eftir miðnætti. Vilji Sjóvá-Almennar Tryggingar HF bera fyrir sig í málinu að Þorsteini hafi verið kunnugt um ölvun Boga er áréttað að félagið beri alfarið sönnunarbyrðina að því leyti. Nægir í því sambandi ekki að vísa eingöngu til ölvunar ökumannsins. Huglæg afstaða stefnanda ráði hér úrslitum. Þá er á það bent að með breytingu umferðarlaga árið 1987 hafi verið stefnt að því að auka bótarétt tjónþola umferðarslysa, m.a. með því að draga úr áhrifum eigin sakar á rétt hans til bóta. Í 2. mgr. 88. gr. laganna sé gerð krafa um stórkostlegt gáleysi af hálfu tjónþola til þess að bætur honum til handa verði lækkaðar. Reglur þessar hafi verið teknar upp í samræmi við þá þróun sem orðið hafði á bótareglum umferðalaga í Danmörku og öðrum nágrannaríkjum Íslands. Í Danmörku séu ökuferðir tjónþola með ölvuðum ökumanni metnar útfrá sjónarmiðum um eigin sök tjónþola. Sé sú niðurstaða eðlileg. Komist dómur í málinu að þeirri niðurstöðu að Þorsteini hafi verið ljóst að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið ölvaður er hann þáði far með honum, skal litið til ákvæða 88. gr. umferðarlaga þegar metin eru áhrif eigin sakar stefnanda. Bætur til handa honum verði því aðeins lækkaðar að sýnt verði fram á háttsemi hans verði að þessu leyti talin fela í sér stórkostlegt gáleysi.

Málsástæður og lagarök stefndu:

Sjóvá-Almennar Tryggingar HF byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að við það að fara sjálfviljugur upp í bifreiðina umrædda nótt, vitandi um ölvunarástand ökumannsins hafi Þorsteinn tekið áhættu og sýnt af sér stórfellt gáleysi sem hann einn beri ábyrgð á. Slíkar aðstæður leiði til þess að bótakröfur stofnast ekki. Því er sérstaklega mótmælt, eins og aðstæðum háttaði, að Þorsteini hafi ekki verið kunnugt um ölvunarástand ökumannsins og ber hann alla sönnunarbyrði í þeim efnum. Þá er því mótmælt að Þorsteinn geti firrt sig ábyrgð á eigin gerðum með því að koma sér sjálfviljugur í ölvunarástand. Aðalkrafan byggir einnig á því að tjón stefnanda verði alfarið rakið til eigin sakar hans, en hann hafi sýnt stórfellt gáleysi við að fara upp í bifreið með drukknum ökumanni. Varakrafa Sjóvá-Almennra Trygginga HF byggir á því, ef ekki verður fallist á aðalkröfu, þá verði tjón Þorsteins að mestu rakið til eigin sakar hans, sem leiða beri til verulegrar lækkunar á stefnukröfum sem hann hafi lagt fram. Fjárkröfum í stefnu er mótmælt sem of háum. Eigi það sérstaklega við um viðmiðunartekjur, frádrag vegna eingreiðslu- og skatthagræðis og jafnframt miskabætur sem séu í engu samræmi við dómvenju.

Niðurstaða:

Samkvæmt gögnum máls liggur fyrir að Þorsteinn var að skemmta sér ásamt skipsfélögum sínum í Reykjavík kvöld eitt og fram eftir nóttu. Þar var Þorsteinn m.a. að drekka með þeim Örvari og Boga. Urðu þeir allir mjög drukknir. Um nóttina fóru þeir þrír saman í leigubifreið til Þorlákshafnar. Eftir það fóru þeir saman í ökuferð á bifreiðinni, sem Bogi ók, en sú ökuferð endaði með því að bifreiðin valt á vegi við Þorlákshöfn skammt norðan við sveitabæ einn. Þorsteinn kastaðist út úr bifreiðinni og slasaðist mikið. Samkvæmt skýrslu lögreglu, sem kom á slysstað, voru þeir allir þrír áberandi undir áhrifum áfengis.

Ökumaður bifreiðarinnar Bogi hefur viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar var alkóhólmagn í blóði hans 1,81o/oo. Hann taldi sig hafa verið á 100 km hraða og ástæða bílveltunnar hafi verið sú að hann náði ekki beygjunni við sveitabæinn. Slysið varð því vegna háskalegs aksturs hans, en hann var ófær um að stjórna ökutækinu fyrir sakir áfengisneyslu.

Fyrir liggur að Þorsteinn var mjög ölvaður er hann fór í ökuferðina með Boga á bifreiðinni tiltekið sinn. Hann hefur greint frá því að hann muni ekkert eftir slysinu eða aðdraganda þess. Það síðasta sem hann kvaðst muna frá umræddu kvöldi er að hafa verið staddur á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur um klukkan 0:30. Kvaðst hann eiga vanda til að fá algjört "black out" við áfengisdrykkju. Er á því byggt af hálfu hans að vegna ölvunar sinnar hafi hann ekki verið fær um að leggja mat á hugsanlega ölvun ökumanns bifreiðarinnar.

Þorsteinn og Bogi höfðu þekkst lengi og voru skipverjar á sama bát er slysið varð. Ákveðið hafði verið að þeir færu til Reykjavíkur að skemmta sér þetta kvöld og er upplýst að þeir hittust og voru saman við drykkju um kvöldið og fram á nótt og samfellt saman þar til slysið varð. Stefnanda hlaut því að vera ljóst að Bogi ók bifreiðinni undir áhrifum áfengis. Ölvun Þorsteins og minnisleysi hans um atvik og atburðarrás tiltekið sinn breytir engu þar um, enda hafði hann sjálfur komið sér í það ástand og getur ekki firrt sig ábyrgð af þeim sökum. Með því að taka þátt í ökuferðinni á bifreiðinni tók hann verulega áhættu og sýndi af sér stórkostlegt gáleysi, sem leiðir til þess að hann hefur fyrirgert bótarrétti sínum á hendur Sjóvá-Almennum Tryggingum HF. Ber því að sýkna Sjóvá-Almennar Tryggingar HF af öllum kröfum Þorsteins í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.

Dómur 2

1.

Birna og Davíð ákváðu að næturlagi að fara frá sveitabæ að lítilli sveitasundlaug og ók Birna, sem var án ökuréttar. Á leiðinni til baka missti hún stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt. Var Birna í miklu uppnámi eftir slysið og kvartaði mjög undan verkjum í baki og hálsi og var ekki í ástandi til að aka. Ók Davíð því bifreiðinni í kaupstað, til að koma Birnu undir læknishendur, þótt hann væri undir áhrifum áfengis. Var hann ákærður fyrir ölvunarakstur. Talið var nægilega sýnt fram á að Birna hefði verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað og að Davíð hefði ekki verið stætt á því að skilja hana eina þar eftir á meðan hann gengi til byggða eftir aðstoð. Þá var talið að Davíð hefði haft ástæðu til að ætla að meiðsl Birnu væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Var fallist á að Davíð hefði ekki átt annarra kosta völ en að aka sjálfur bifreiðinni, en engin umferð var á veginum og áfengismagn í blóði hans fór ekki verulega fram úr hámarki umferðarlaga. Var talið að þrátt fyrir það að háttsemi Davíðs væri andstæð ákvæði 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga hefði hún verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Var verknaðurinn því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga og niðurstaða um sýknu Davíðs staðfest. Semsagt, Davíð slapp við dóm.

2.

Samkvæmt gögnum málsins var ákærði vistaður í fangageymslu eftir komu á lögreglustöð og skýrsla tekin þar af honum eftir hádegi daginn eftir að hann var handtekinn. Hann var handtekinn er hann kom í kaupstaðinn. Í skýrslunni var haft eftir honum að hann hafi kvöldið áður setið að spjalli með nokkrum kunningjum sínum þar til um eða laust eftir miðnætti. Hafi hann þá haldið þaðan ásamt Birnu á áðurnefndri bifreið, sem hann hafi ekið, að sundlauginni í sveitinni. Þau hafi upphaflega ætlað að fara í sundlaugina, en hætt við það þegar þangað var komið. Hafi þá Birna fengið að aka bifreiðinni stuttan spöl, en ákærði síðan tekið aftur við akstri. Hafi þau ætlað að fara aftur heim, en í fyrstu beygjunni á leið frá sundlauginni hafi ákærði misst stjórn á bifreiðinni, sem hafi farið tvær veltur og hafnað á hjólunum. Hafi þau Birna "bæði verið í sjokki fyrst eftir veltuna", en eftir nokkra stund hafi hann gangsett bifreiðina og ekið í kaupstaðinn. Ákærði gekkst við því að hafa neytt áfengis fyrir aksturinn, svo og að sér hafi verið kunnugt um að Birna hafi ekki haft ökuréttindi þegar hann heimilaði henni að aka bifreiðinni.

3.

Nokkrum dögum síðar kom Birna að eigin frumkvæði til lögreglunnar þar sem hún gaf skýrslu. Hún kvaðst hafa ekið fyrrnefndri bifreið frá sveitabænum að sundlauginni í sveitinni umrædda nótt og ákærði verið einn með henni. Þar hafi þau staldrað við um stund og ákveðið síðan að halda aftur heim. Hún hafi ekið af stað, en eftir skamma stund misst stjórn á bifreiðinni, sem hafi oltið. Hafi hún drepið á hreyfli bifreiðarinnar og farið út til að gæta að því hvort ákærði, sem hafi setið í hægra framsæti, væri slasaður. Þau hafi bæði "verið í sjokki eftir veltuna en ekki mikið slösuð enda hafi þau bæði verið með bílbeltin spennt." Eftir um hálfa eða eina klukkustund hafi þau ákveðið að gangsetja bifreiðina og aka henni í kaupstaðinn, "þar sem þeim hafi fundist of langt að ganga þangað." Hún hafi skipað ákærða að aka, sem hann hafi gert. Þegar þau hafi komið í kaupstaðinn komst hún undir læknishendur. Hún kvaðst ekki hafa neytt áfengis sjálf og efaðist um að ákærði hafi gert slíkt eftir að þau héldu af stað í ferð sína.

Davíð kom á ný til lögreglu daginn eftir og kvaðst vilja breyta framburði sínum, því Birna hafi ekið bifreiðinni umrædda nótt að sundlauginni og aftur þaðan þar til bifreiðin valt. Hafi hann verið farþegi í bifreiðinni, en tekið við akstri hennar eftir veltuna og ekið í kaupstaðinn sem hafi verið á að giska 5 til 6 km leið. Kvaðst hann hafa ætlað að taka á sig akstur Birnu, því hann hafi vitað að hún væri án ökuréttar. Hafi hann ákveðið þetta upp á sitt eindæmi, en daginn eftir slysið hafi þau sammælst um að láta það sanna koma fram.

Dómur 3

Bifreiðir. Umferðarslys. Manndráp af gáleysi. Svipting ökuréttar. Aðfinnslur.

Baldur var ákærður fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa ekið of hratt og án nægilegrar aðgæslu í mikilli hálku á hættulegum vegarkafla í beygju, með sex farþega í bifreið sem gerð var fyrir fjóra farþega, og voru tveir ungir drengir í pallhýsi bifreiðarinnar. Baldur hafði misst vald á bifreiðinni, sem fór út af veginum og valt með þeim afleiðingum að pallhýsið losnaði og drengirnir köstuðust af bifreiðinni og lést annar þeirra. Fallist var á það með héraðsdómi að Baldur hefði sýnt af sér vítavert gáleysi með því að flytja drengina á palli bifreiðarinnar án nokkurs öryggisbúnaðar. Athæfið gerði auknar kröfur til Baldurs um ýtrustu varkárni á akstri og taldi Hæstiréttur að meta yrði atvik og afleiðingar með sérstöku tilliti til þess. Talið var sannað að Baldur hefði ekið of hratt og ekki sýnt næga aðgæslu, sérstaklega með hliðsjón af ástandi vegarins og farþegunum á palli bifreiðarinnar. Var Baldur sakfelldur fyrir brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 73. gr., 1. mgr. og c- og h- liðum 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100., gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, auk ökuréttarsviptingar í eitt ár.

Ákærða er gefið að sök að hafa dag einn ekið Toyota Hilux pallbifreið frá Reykjavík áleiðis að Langajökli með sex farþega og þar af tvo unga drengi í pallhýsi hennar, en bifreiðin var gerð fyrir fjóra farþega. Hann er jafnframt sakaður um að hafa ekið of hratt og án nægilegrar aðgæslu í mikilli hálku á vegarkafla í beygju á mjög hættulegum vegi. Þar hafi ákærði misst vald á bifreiðinni, sem fór út af veginum og valt, með þeim afleiðingum að pallhýsið losnaði og drengirnir köstuðust af bifreiðinni og lést annar þeirra. Málavöxtum og framburði ákærða og vitna er skilmerkilega lýst í héraðsdómi.

Á það verður fallist með héraðsdómi að ákærði hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með því að flytja drengina á palli bifreiðarinnar án nokkurs öryggisbúnaðar, en þar hlutu þeir að vera í mikilli hættu. Þetta athæfi gerði auknar kröfur til ákærða um ýtrustu varkárni í akstri og verður að meta atvik og afleiðingar með sérstöku tilliti til þess. Af gögnum málsins er ljóst að nýfallinn snjór var á veginum og nokkur hálka, sem ákærði hlaut að vita um eða mátti gera ráð fyrir. Þótt hann hafi ekið undir leyfilegum hámarkshraða var brýn ástæða til að haga akstrinum þannig að hann hefði fullt vald á bifreiðinni við hverjar þær aðstæður sem kynnu að skapast í ferðinni. Slysið varð er ákærði þurfti að mæta annarri bifreið í aflíðandi beygju. Verður ekki séð að hálkan hafi verið slík að honum hefði þá ekki átt að vera unnt að draga vandræðalaust úr hraða bifreiðar sinnar þegar hann sá hina bifreiðina framundan, en ekki verður fullyrt, eins og héraðsdómur gerir, að hann hafi stigið á hemla. Verður að telja, þegar allt er virt, að ákærði hafi ekið of hratt og ekki sýnt næga aðgæslu, sérstaklega þegar litið er til ástands vegarins og farþeganna á palli bifreiðarinnar.

Með þessum athugasemdum og vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru, þar sem brot hans eru réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er ákvörðun hans um refsingu, sviptingu ökuréttar og sakarkostnað staðfest.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómur héraðsdóms

Ákærður er í máli þessu Baldur, fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa ekið Toyota Hilux pallbifreiðinni frá Reykjavík áleiðis að Langajökli með 6 farþega í bifreiðinni og þar af 2 unga drengi í pallhýsi hennar, en bifreiðin er gerð fyrir 4 farþega, og of hratt og án nægjanlegrar aðgæslu í mikilli hálku á vegarkafla í beygju. Þar missti ákærði vald á bifreiðinni sem snerist, fór út af veginum og valt með þeim afleiðingum að pallhýsið losnaði af bílnum og drengirnir köstuðust af bílnum og annar þeirra hlaut við veltuna svo mikla áverka innvortis í brjóstholi að hann lést skömmu síðar.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar.

Verjandi ákærða krafðist þess við aðalmeðferð að ákærði yrði sýknaður af þeim hluta ákærunnar sem segir að hann hafi ekið of hratt og ógætilega miðað við aðstæður, og að honum yrði gerð vægasta refsing sem lög heimila fyrir þau brot önnur sem hann teldist hafa framið, og hann yrði jafnframt sýknaður af broti á 215. gr. almennra hegningarlaga og ekki gerð svipting ökuréttar skv. 101. gr. umferðarlaga. Verjandi krafðist hæfilegra málsvarnarlauna.

II

Í skýrslu lögreglunnar segir:

"Tilkynnt frá Neyðarlínu um alvarlegt umferðarslys. Neyðarlínan hafði þá þegar kallað út sjúkrabifreiðar auk þyrlu frá Landhelgisgæslunni. Lögreglubifreiðar fóru á vettvang.

Atvik voru með þeim hætti að bifreiðinni var ekið austur að Langjökli en á leiðinni missti ökumaður bifreiðarinnar stjórn á henni í talsverðri hálku, bifreiðin fór út af veginum vinstra megin og valt. Í bifreiðinni, sem var pallbifreið af Toyota Hi-Lux Double Cap, var farþegarými fyrir 4 farþega auk ökumanns. Yfir pallinum var ásmellt skýli úr trefjaplasti.

Farþegar í bifreiðinni voru hins vegar 6 talsins, 4 inni í bifreiðinni og 2 á pallinum. Að sögn þeirra sem voru inni í bílnum voru þau öll í bílbeltum. Aftan á palli bifreiðarinnar voru tveir drengir. Þar voru engin sæti né búnaður til farþegaflutnings.

Við veltuna fór fyrrnefnt skýli af pallinum og drengirnir köstuðust af bifreiðinni. Bifreiðin stöðvaðist á hægri hlið á skurðbakka og lenti annar drengurinn ofan í skurðinum ásamt ýmsum farangri sem geymdur var á pallinum. Ekki er vitað hvar hinn drengurinn lenti eftir slysið en hann stóð við bifreiðina þegar aðrir farþegar komu út úr bifreiðinni.

Fyrst á vettvang var fólkið sem var í bifreiðinni sem Baldur ók á móti þegar hann missti stjórn á henni. Þau hófu þegar að gera lífgunartilraunir á drengnum sem lá máttvana og síðar dreif að fleiri vegfarendur. Fólkið hélt áfram lífgunartilraunum en konan sem kom á vettvang var hjúkrunarkona en maðurinn var sjúkraflutningamaður.

Um 25 mínútum síðar kom lögreglan á vettvang og lokaði þjóðveginum með aðstoð vegfarenda sem þarna voru. Aðeins 4 mínútum síðar kom sjúkrabifreið með lækni og sjúkraflutningamanni. Útbúinn var lendingarstaður fyrir þyrlu rétt hjá og lenti þyrlan TF-LIF og héldu læknar og sjúkraliðar áfram lífgunartilraunum á drengnum en án árangurs og úrskurðuðu læknar hann látinn nokkru síðar."

Síðar í skýrslu lögreglu, undir lok hennar, segir:

"Erfitt var að ræða við ökumann og aðra sem í bifreiðinni voru sökum tilfinningalegs uppnáms. Þó kvaðst ökumaður hafa komið frá Reykjavík og hafi ferðinni verið heitið til Langjökuls. Hann kvaðst hafa verið búinn að panta 7 manna bifreið hjá bílaleigu en þegar til kom hafi engin slík bifreið verið til reiðu og því hafi þessi kostur verið tekinn. Hann kvaðst gera sér fulla grein fyrir ábyrgð sinni sem ökumanns varðandi flutning umframfarþega á palli bifreiðar. Hann kvaðst hafa ekið frekar rólega þar sem mikil hálka hafi verið á veginum. Í aflíðandi hægri beygju á 70 - 80 km/klst. hraða hafi bifreiðin skrensað til vinstri að aftan, hann reynt að rétta hana af, talið að sér hafi tekist það í fyrstu en síðan hafi hún skrensað til hægri. Þá kveðst hann hafa reynt að hemla, bifreiðin snúist meira á veginum og síðan farið út af. Hann kvaðst halda að bifreiðin hafi farið eina eða tvær veltur. Hann kvaðst þegar eftir veltuna [hafa] farið út úr bifreiðinni og hugað að drengjunum, annar þeirra hafi verið þarna alblóðugur og grátandi en hinn legið hreyfingarlaus í skurðinum. Hann kvaðst hafa reynt að tala til drengsins sem ekki hreyfði sig og hrista hann til en engin lífsmörk fundið. Samferðafólk hans hafi komið þarna og allir verið í miklu uppnámi. Síðan hafi komið þarna eitthvað [svo] fólk að sem hafi tekið stjórnina í sínar hendur og fært hann í einhverja bifreið ásamt slasaða drengnum."

Í lok frumskýrslu lögreglu segir að haft hafi verið samband við eiganda bifreiðarinnar og í samráði við hana hafi komið dráttarbifreið sem fjarlægt hafi hana af vettvangi.

Ákærði gaf skýrslu fyrir lögreglu og fyrir dómi.

Fyrir dómi skýrði hann svo frá um aðdraganda ferðar að hann hefði ætlað að fara austur á Langajökul á snjóbretti ásamt fleira fólki. Hann kvaðst hafa verið með fólksbíl á leigu frá bílaleigu, og því hefði hann snúið sér til hennar til að fá skipt á bíl. Hann hefði hringt í bílaleiguna og talað við afgreiðslumann og spurt eftir 7 manna bíl. Afgreiðslumaðurinn hefði sagt sér að hann ætti ekki slíkan bíl, en boðið honum Toyota Hilux, 5 manna bíl með pallhýsi. Hann gæti fengið slíkan bíl bókaðan og komið svo morguninn eftir og séð til hvort 7 manna bíll yrði þá til. Ákærði kvaðst svo hafa komið á bílaleiguna að morgni daginn eftir og spurt afgreiðslumanninn hvort hann væri ekki með stærri bíl en Toyota Hilux. Afgreiðslumaðurinn hefði neitað því, sagt að "Hi-luxinn" væri sá eini sem hann gæti boðið. Hann hefði aldrei boðið sér stærri bíl. Þetta hefði endað með því að hann hefði tekið "Hi-luxinn".

Í skýrslu sinni fyrir lögreglu sagði ákærði að hann hefði ekið á 70-80 km/klst. hraða þegar hann kom að beygjunni þar sem hann missti stjórn á bílnum. Fyrir dómi bar hann hins vegar að hann myndi ekki nákvæmlega hraðann, en hann héldi að hann hefði ekið á um 60 km/klst. hraða rétt áður en slysið varð. Unnusta hans hefði setið við hlið hans, og hún hefði ítrekað verið að biðja hann um að hægja ferðina. Hann hefði hægt ferðina áður en slysið varð.

Um það hvernig ákærði missti stjórn á bifreiðinni segir í lögregluskýrslunni: "Ég kom þarna í aflíðandi beygju og þar fór bifreiðin að renna til á veginum. Ég beygði á móti og reyndi að ná valdi á bifreiðinni. Ég náði aldrei fullu valdi á bifreiðinni eftir að hún byrjaði að renna til og endaði með því að ég missti bifreiðina útaf veginum . . .". Fyrir dómi sagðist ákærða svo frá: "Það gerist að bíllinn byrjar að "slæda" [þ.e. skríða eða renna til. Innskot dómara], og við erum að koma í beygju, og ég keyri þarna fram hjá bíl sem kemur á móti okkur og ég svona- man ekki alveg nákvæmlega- en mér fannst svona eins og hann væri frekar meira úti á miðri götu, þannig að þegar ég kom í beygjuna er ég svolítið innarlega í kantinum. Og út frá því byrjar bíllinn að "slæda", og ég reyni eftir megni - ég næ að halda honum svona einu sinni sko, en þá "slædar" hann svo rosalega að aftan að hann fer út í og við keyrum, og ég man að við tökum þarna eina veltu."

Ákærði var spurður hvar hann hefði mætt bílnum sem kom á móti. Hann kvaðst ekki muna það nákvæmlega, sig minnti að það hefði verið í byrjun beygjunnar. Hann var þá spurður hvort hann hefði dregið úr ökuhraða áður en bílarnir mættust. Hann svaraði að rétt áður en þetta gerðist hefði kærastan sín beðið sig að hægja ferðina, og það hefði hann gert. Ákærði tók fram að unnusta hans væri bílhrædd og bæði sig oft að draga úr hraða.

Sækjandi spurði ákærða hvort hann hefði stigið á bremsurnar eftir að bíllinn fór að renna til. Ákærði kvaðst ekki muna það nákvæmlega. Hann kvaðst hafa einbeitt sér að því að stýra bílnum. Sækjandi bar þá undir ákærða það sem segir í frumskýrslu lögreglu, að hann hefði reynt að hemla. Ákærði sagði að það gæti mjög vel passað.

Ákærði var spurður hvort hann teldi útilokað að bifreið hans hefði verið farin að renna til áður en hann mætti bílnum sem kom á móti. Svar ákærða við þessu var ekki vel ljóst. Hann kvaðst ekki muna þetta nákvæmlega.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki verið vanur að aka Toyota Hilux bíl, en vanur að aka annars konar jeppa. Hann kvaðst einnig vanur að aka á vegum í útlöndum, breiðari og betri en á Íslandi.

Ákærði kvaðst hafa verið vel fyrir kallaður, ágætlega sofinn.

Hann sagði að enginn öryggisbúnaður hefði verið á pallinum fyrir drengina sem þar voru. En vel hefði verið um þá búið, þeir hefðu verið í svefnpokum. Ákærði var spurður hvort hann hefði verið hræddur við að flytja drengina þannig. Svar: "Já, mér var illa við það. Mér var ennþá verr við að segja: "Nei, þið komið ekki með.""

Ákærði bar á því ábyrgð sem umráðamaður og ökumaður bifreiðarinnar, að drengirnir tveir voru hafðir á palli bifreiðarinnar. Þar var búið um þá innan um farangur. Enginn öryggisbúnaður var á pallinum, og húsið yfir honum var fest með óvönduðum festingum, enda var bifreiðin gerð og skráð einungis fyrir fjóra farþega inni í húsi bílsins. Drengirnir voru því í mikilli hættu ef bifreiðinni hlekktist á. Má í þessu sambandi líta á, að upplýst er að ökumaður og farþegar inni í húsi bifreiðarinnar hafi verið í bílbeltum, og er ekki að sjá af gögnum máls að þeir hafi meiðst neitt. Sú háttsemi ákærða að flytja drengina við þær aðstæður sem hér var greint var brýnt brot á 2. mgr. 73. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Dómari telur þessa háttsemi ákærða vera vítavert gáleysi.

Skortur á öryggisbúnaði olli því að við útafkeyrslu og veltu bílsins fór skýlið af palli (eða skúffu) hans og drengirnir köstuðust út af pallinum. Við það hlaut annar þeirra áverka sem urðu honum að bana. Lát hans má því rekja beint til vítaverðs gáleysis ákærða. Varðar það við 215. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði, Baldur, sæti þriggja mánaða fangelsi. Fullnustu þeirrar refsingar skal fresta og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns 150.000 krónur auk virðisaukaskatts.


kennarar Created with Sketch.